Afturkalli tilmæli sín

Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason mbl.is

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur beint því formlega til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að afturkalla tilmæli þessara stofnana til fjármálafyrirtækja frá 30. júní sl. vegna valdþurrðar, rangs lagagrunns, skorts á lagastoð að formi og efni til og ónógs undirbúnings. Þetta kemur fram á vef talsmanns neytenda. Þar kemur fram að umboðsmanni Alþingis og ríkisstjórninni hafi verið send afrit af ábendingu talsmanns.

Á vef talsmanns neytenda kemur fram að ábending hans byggist á því að FME og SÍ hafi ekki valdheimildir til þess að senda umrædd tilmæli, auk þess sem þau séu byggð á röngum lagagrunni. Enn fremur hafi tilmælin ekki fengið réttan undirbúning.

„Ábending þessi er í samræmi við þau áform sem ég kynnti opinberlega í kjölfar dóma Hæstaréttar um sjálfstæð viðbrögð af hálfu talsmanns neytenda yrðu viðbrögð fjármálafyrirtækja og stjórnvalda ekki fullnægjandi gagnvart neytendum, sbr. og svarbréf mitt, dags. 21. júní sl., til efnahags- og viðskiptaráðherra um viðhorf embættisins til þess hvernig mætti vinna úr þeirri stöðu sem upp væri komin í kjölfar dómanna.

Sem fyrr er ég sem talsmaður neytenda vitaskuld reiðubúinn til samráðs við alla sem eiga í hlut um rétt viðbrögð í þágu neytenda og annarra lögmætra hagsmuna. Ég tel rétt að stofnanirnar endurskoði aðkomu sína að málinu að höfðu samráði við fulltrúa helstu hagsmunaaðila - að teknu tilliti til þeirra lagaröksemda sem að framan greinir,“ segir m.a. á vef talsmannsins.

Þar er jafnframt bent á að sjaldgæft sé að embættið sendi öðrum stjórnsýsluaðilum formlega ábendingu. Það hefi aðeins gerst tvívegis áður, annars vegar til eftirlitsnefndar með starfsemi fasteignasala 2007 og hins vegar 2009 til Lögmannafélags Íslands sem eftirlitsaðila með innheimtustarfsemi lögmanna.

Frétt á vef talsmanns neytenda



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka