Vangaveltur eru uppi um hvort ofgreidd lán fáist endurgreidd fari fjármögnunarfyrirtækin í þrot. Margir hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa í ljósi erfiðrar stöðu fjármögnunarfyrirtækisins Avant.
„Ég óttast um hag og rétt þeirra lántakenda sem kunna að hafa ofgreitt lánagreiðslur,“ sagði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, í samtali við Morgunblaðið. Gísli segist ætla að beita sér í málinu með hagsmuni lántakenda að leiðarljósi.
Þeir lögfræðingar sem Morgunblaðið hafði samband við eru sammála um að umræddar kröfur séu almennar kröfur. Þeir sem telji sig hafa ofgreitt afborganir af lánum verða þá að leggja inn almenna kröfu fari lánveitandinn í þrot. Þær komi svo eins og hver önnur krafa á félagið. Eignastaða fyrirtækisins ráði því hve mikið fáist borgað upp í kröfurnar.