Bryggjuveiðimenn voru ekki lengi að kasta út færi, þegar heyrðist af makríltorfum við strendur landsins. Frá síðustu helgi hefur mokveiðst af þessum fisk m.a. í Kópavogi, Reykjanesbæ og á Akranesi. En hvað svo? Hvernig í ósköpunum á að elda makrílinn þegar hann er kominn á land?
Úlfar Eysteinsson, matreiðslumaður á Þremur Frökkum í miðbænum, sýndi mbl sjónvarpi hvernig er hægt að laga dýrindismat úr makrílnum á örstuttum tíma. Úlfar segir að best sé að matreiða makrílinn með sterkum kryddum, þar sem fiskurinn er afar feitur.
Úlfar bauð fréttamönnum upp á makríl í súrsætri sósu, með grænmeti og hrísgrjónum. Rétturinn er afar einfaldur og tók aðeins nokkrar mínútur að útbúa hann. Sannkallaður herramannsmatur!