„Hér eru aðallega útlendingar en Íslendingarnir eru aðeins byrjaðir að koma og forvitnast,“segir Ragnheiður Hauksdóttir, staðarhaldari í Húsadal í Þórsmörk. Umferð í Þórsmörk hafi verið heldur minni í sumar en síðustu ár. Því sé eldgosinu um að kenna en engin ástæða sé nú til að óttast óblíða náttúru.
Hún segir öskufok ekkert hafa angrað fólk undanfarna daga. Reglulegir skúrir hafi haldið öskunni niðri. Nú skíni sóli glatt og veðrið sé eins og best verði á kosið. Útlitið sé því gott fyrir næstu daga.
Ragnheiður segir Þórsmörkina aldrei hafa verið jafn græna. Askan virki eins og áburður á landið.
Undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir Laugavegshlaupið sem fram fer um helgina. Hátt í 400 manns eru skráð til þátttöku.