Í vitnisburði fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í máli varðandi stórfellt kókaínsmygl sagði einn ákærðu að lögregla hafi beitt hann miklum þrýstingi til að knýja hann til sagna. Hann hafi verið í mikilli neyslu og illa áttaður og því látið undan. Hann hafi eytt tveimur vikum í einangrun og í kjölfarið verið yfrheyrður af lögreglu án þess að lögmaður væri viðstaddur. Þegar ekki hafi fengist svör sem nægja þóttu hafi hann verið settur í einangrun að nýju.
„ Það er bara pressað rosa á mig og, þú veist, ég var bara ein taugahrúga,“ sagði ákærði um aðfarir lögreglu. Kvað hann að lögregla hafi nánast lagt honum orð í munn; „Mér var bara sagt hvað ég átti að segja.“
Hinn ákærði breytti framburði sínum töluvert frá því sem skjalfest er í skýrslum lögreglu. Kvað hann að ástand hans vegna neyslu, innilokun og ótta hafi skert dómgreind hans og leitt hann til að skýra ekki rétt frá í fyrstu.
Hinn ákærði sem hér um ræðir var í nýdæmdu máli af keimlíkum toga borinn þeim sökum af einum ákærða í því að hafa hafa staðið að baki smyglinu í því máli. Hann var ekki meðal ákærðu í því máli og neitaði sökum sem vitni fyrir dómi.