Sagði stjórnarsamstarfið í hættu

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Silja Bára Ómarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í nefnd um erlenda fjárfestingu, og Björk Sigurgeirsdóttir, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar, sögðu í fréttum Útvarpsins í dag, að Unnur G. Kristjánsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar hafi ítrekað reynt að fá þær til að sitja hjá við afgreiðslu álits nefndarinnar á kaupum Magma Energy Sweden á HS Orku. 

Silja Bára sagði í fréttum Útvarpsins, að Unnur hefði ítrekað beðið hana að sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísað meðal annars til þess að stjórnarsamstarfið væri í hættu.

Sagðist Silja Bára ætla að leita til umboðsmanns Alþingis í þeirri viðleitni að fá ráðherraábyrgð á áliti nefndarinnar hnekkt eins og hún orðaði það.

Unnur hefur nú sent frá sér athugasemd og segir að Silja Bára vitni í einkasamtöl þeirra í vetur. 

„Eins og vera ber sagði ég henni þá skoðun mína að afstaða hennar stæðist ekki lög og mat sérfræðinga. Þá ræddi ég einnig um að þetta mál hefði áhrif á stjórnarsamstarf ríkisstjórnarflokkanna sem  henni var reyndar fullljóst sjálfri. Ég hélt að hún væri ekki viðkvæm fyrir þessu enda kennir hún alþjóðastjórnmál í Háskóla Íslands. En mér þykir leitt að hafa valdið henni óþægingum með þessari rökræðu minni," segir Unnur í athugasemdinni.

Hún segir að afstaða Silju Báru  og Bjarkar í þessu máli hafi verið ljós frá upphafi og lögfræðiálit og rannsókn málsins hefðu engin áhrif á þær.  Unnur segist hafa aflað sér gagna og sett fram mjög gagnrýnar spurningar til sérfræðinganna í gegnum allt vinnuferlið sem stóð frá því í september  fram í mars 2010.

Þá undirstrikar Unnur, að  allra þeirra gagna sem nefndin þurfi hafi verið aflað. „Einnig rannsakaði ég nokkra fleiri þætti en fram koma í greinargerðunum. M.a. hef ég haft upplýsingar um að Magma Sweden AB starfar sem fjárfestingafélag, með sjálfstæðan fjárhag og að allir fjármunir og skuldbindingar gagnvart HS Orku hf fara í gegnum reikninga þess eins og vera ber í slíku fyrirtæki. Tekið skal fram að ég hef leyfi hlutaðeigandi til að segja frá þess. Tekið skal fram að nefnd um erlenda fjárfestingu hefur ekki stöðu rannsóknaraðila," segir Unnur.

Hún bætir við, að starf í nefndinni krefjist þess af nefndarmönnum að leggja til hliðar stjórnmálaskoðanir og gæta hlutleysis og fara að lögum hversu andstæð sem þau kunni að vera því sem hjartað segir.

Að tjá sig opinberlega um málsaðila eða eða viðfangsefni nefndarinanr öðruvísi en á hlutlægan hátt veldur vanhæfi nefndarmanna. Ferli þessa máls hófst fyrir réttu ári síðan, síðast skipti hlutafé í HS Orku um hendur í maí sl. Stjórnmálamenn  hefðu á þessu tíma getað breytt þeim. Það gerðu þeir ekki og lögin eru enn í gildi og verða a.m.k. fram á haust.  Á því ber nefnd um erlenda fjárfestingu ekki ábyrgð."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert