Útlit er fyrir að verkfallsaðgerðir slökkviliðsmanna verði að veruleika í næstu viku.
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna boðar til verkfalls föstudaginn 23. júlí nema samningar takist um bætt launakjör félagsmanna.
Viðræður hafa staðið yfir um nokkurt skeið á milli launanefndar sveitarfélaga og slökkviliðsmanna en upp úr viðræðunum slitnaði í dag.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir stöðuna dapurlega. Verði verkfallið að veruleika muni slökkviliðið aðeins sinna neyðarútköllum. Mun færri menn verði á vakt og viðbrögð verði lélegri.
Hann vonast til þess að viðræður hefjist að nýju svo hægt verði að leysa málið.
Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samþykkti meirihluti félagsmanna að hefja verkfallsaðgerðir fáist ekki viðunandi niðurstaða í málið.
Slíkt verkfall hefði alvarlegar afleiðingar á samfélagið. Til dæmis yrðu aðeins 22 menn á vakt í einu á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Verkfallið mun standa milli klukkan 8 til 16 dag hvern og verður einungis neyðartilfellum sinnt. Ekki verður farið í útköll sem þola bið.
Náist ekki samningar verður boðað til allsherjarverkfalls í september.
Slökkviliðsmenn hafa aldrei farið í verkfall í líkingu við það sem nú er boðað.