Rafmagnsvespur sem komu á markað hér á landi í sumarbyrjun skulu flokkast sem reiðhjól samkvæmt umferðarlögum og ber því að nýta þær á göngustígum og gangstéttum.
Þetta staðfestir Marta Jónsdóttir, lögfræðingur ökutækjasviðs Umferðarstofu. „Við fengum framkvæmdastjóra Suzuki-umboðsins, sem selur El-go-rafmagnsvespurnar, í heimsókn með C.o.c.-vottorð. Þar kemur skýrt fram að hámarkshraðinn er 25 km á klst og þær eru því reiðhjól samkvæmt skilningi 2. greinar umferðarlaga,“ segir Marta. Ekki sé ástæða til að endurskoða þennan hluta laganna að svo stöddu.