Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hélt í dag til jarðskjálftasvæðanna í Sichuan, þar sem 300 þúsund manns létu lífið í jarðskjálftunum í maí 2008. Þar þakkaði landstjórinn Íslendingum fyrir liðveislu þeirra við íbúa jarðskjálftasvæðanna á sama tíma og Ísland hefði verið að ganga í gegnum mjög erfiða efnahagskreppu.
Þetta kom fram á fundi sem Össur átti með Jian Jufeng sem fram fór í Chengu, höfuðborg Sichuan. Sagði landstjórinn að það hefði vakið athygli um gervallt Kína og Íslendingar myndu finna að því yrði ekki gleymt af Kínverjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Fram kemur að þegar jarðskjálftarnir hafi dunið yfir hafi Íslendingar veitt íbúum hamfarasvæðanna þrenns konar stuðning. Ríkisstjórnin veitti framlag til neyðaraðstoðar. Íslensk fyrirtæki sem eiga viðskipti við Kína söfnuðu fé til að reisa grunnskóla fyrir 200 börn á afskekktu fjallasvæði. Einnig tók Össur hf ásamt hjálparsamtökum frá Hong Kong þátt í að setja upp endurhæfingarstöð þar sem einstaklingar sem misstu útlimi í jarðskjálftunum fá nýja fætur, sem gera þeim kleift að lifa eðlilegu lífi.
Landsstjórinn þakkaði Íslendingum sérstaklega byggingu skólans og þátttöku í að gera fórnarlömbum jarðskjálftanna kleift að taka eðlilegan þátt í samfélaginu á nýjan leik.
Á fundinum var jafnframt rætt ýtarlega um samskipti Íslands og Kína, ekki síst í tengslum við jarðhita, en víða í Sichuan eru möguleikar á að nýta jarðhita til húshitunar og jafnvel raforkuvinnslu. Sichuan er fjölmennasta hérað Kína.