Lokað fyrir bílaumferð í Bankastræti

Mannlífið í borginni er með líflegasta móti þessa dagana og …
Mannlífið í borginni er með líflegasta móti þessa dagana og borð utan við veitingahús eru þéttsetin. mbl.is/Eggert

Bankastrætinu var ásamt hluta Laugavegar og Skólavörðustígs lokað fyrir bílaumferð á hádegi í dag vegna veðurblíðu og verður svo áfram um helgina. Er Laugavegurinn nú göngugata frá gatnamótum við Vatnsstíg og Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti.

Einstöku blíðviðri er spáð í höfuðborginni um helgina og vilja borgaryfirvöld og samtökin Miðborgin okkar gefa fólki aukið rými til að njóta þess.

Fyrr í mánuðinum var Austurstræti, Pósthússtræti og hluta Hafnarstrætis breytt í göngugötur og hefur það mælst vel fyrir hjá borgarbúum, að sögn umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar.

Útitónleikar verða haldnir í Hljómskálagarðinum í kvöld og útimarkaður verður á Hjartatorginu á Hljómalindarreit á laugardag. Sama dag verða einnig tónleikar fyrir utan verslunina Útúrdúr í Austurstræti. Þá hafa liðsmenn Skyggni frábært skreytt miðbæinn með innsetningum sínum.

Ökumönnum er bent á að hægt er að leggja bílum í nærliggjandi bílastæðahúsum, t.d. í Kolaporti að Kalkofnsvegi 1, í kjallara Ráðhússins við Tjarnargötu og Traðarkoti við Hverfisgötu 20. Bílaumferð verður á ný hleypt um Bankastræti, Laugaveg og Skólavörðustíg mánudaginn 19. júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert