Nemendum í tíunda bekk Álftanesskóla er gefinn kostur á að sitja námskeið sem kallast „stelpuval“ og „strákaval“.
Í lýsingu á námskeiðunum sem finna má í valbók skólans segir að í strákavali verði farið yfir helstu áhugamál drengja. Þar verður því farið yfir helstu úrslit helgarinnar, bílaíþróttir og tæknimál.
Í stelpuvalinu verður hins vegar farið yfir tískumálin, fatnað, skó og liti. Þá verða undirstöðuatriði förðunar kennd ásamt knappri úttekt á slúðurblöðum og vefsíðum þeirra.
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, er afar ósátt með námskeiðin í samtali í Morgunblaðinu í dag. Hún kveður þau ýta undir staðalmyndir þó skólanum beri skylda til að vinna gegn þeim. „Þetta er svo mikill hégómi. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að okkur vanti margt tæknimenntað fólk. Það vantar innan tölvu- og tæknigeirans. Hvað er skólinn að hugsa með svona hégóma?“