Samtök atvinnulífsins segja, að kaupmáttur lágmarkslauna sé nú 2,5% hærri en fyrir upphaf samningstímans í febrúar 2008. Öðru máli gegni um laun almennt en kaupmáttur launa hafi dregist saman um 13,5% á tímabilinu.
„Lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði voru hækkuð í 165.000 kr. þann 1. júní sl. samkvæmt kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ. Lágmarkslaunin voru hækkuð um 40.000 kr. á samningstímabilinu, sem er frá febrúar 2008 til nóvemberloka þessa árs, eða um 32%. Frá ársbyrjun 2008 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 29% þannig að kaupmáttur lágmarkslauna er nú 2,5% hærri en fyrir upphaf samningstímans.
Öðru máli gegnir um laun almennt. Launavísitala Hagstofunnar, sem endurspeglar laun alls launafólks á landinu, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, hefur hækkað um 12% frá ársbyrjun 2008 en kaupmáttur launa hefur dregist saman um 13,5% á tímabilinu," segir á vef Samtaka atvinnulífsins.
Þar segir, að kjaraskerðing launafólks af völdum efnahagskreppunnar hafi verið mjög mismunandi eftir starfsstéttum. Gögn Hagstofunnar um launaþróun starfsstétta nái til 1. fjórðungs þessa árs og þau sýni að verkafólk varð fyrir minnstri kjaraskerðingu á tímabilinu, eða 8%, samanborið við 13% hjá öllum launamönnum.
Næst minnst hafi kjaraskerðingin orðið hjá félagsmönnum verslunarmannafélaga, þ.e. afgreiðslu- og skrifstofufólki, eða sem nam 11%. Mest varð kjaraskerðingin hjá stjórnendum, 19%, og sérfræðingar fylgdu þar fast á eftir með 17% kjaraskerðingu. Kaupmáttarfall hjá iðnaðarmönnum var nálægt meðaltali eða 14%.