Aðstæður hjá fiskverkendum eru mjög misjafnar eftir því hvort um er að ræða vinnslu á bolfiski eða uppsjávarfiski. Í makríl og síld ríkir vertíðarstemning en 130.000 tonn af makríl verða veidd á þessu fiskveiðiári. En í bolfiskinum kvarta menn undan svimandi háu hráefnisverði og þar eru lengri sumarlokanir en áður.
Oddi á Patreksfirði var lokaður í tvo mánuði í sumar vegna kvótaleysis sem er lengri tími en áður á sumrin hjá fyrirtækinu. Hjá fyrirtækinu Gunnvör á Ísafirði verður lokað í mánuð í sumar. Fiskvinnsla Brimbergs á Seyðisfirði hefur verið lokuð frá júlíbyrjun og verður ekki opnuð aftur fyrr en 10. ágúst. Adolf Guðmundsson forstjóri segir þetta í fyrsta skipti sem fyrirtækið er með svona vinnslustopp vegna kvótaleysis.
„Ef við hefðum hráefnisverðið í eðlilegum farvegi þá gæti fiskvinnslan vel staðið undir sér, sem hún getur ekki í dag. Við erum eiginlega að éta okkur innan frá með þessu,“ segir einn viðmælandi Morgunblaðsins í umfjöllun blaðsins um þessi mál.