Sex gista nú fangageymslur eftir nóttina vegna ölvunar og óspekta að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Töluvert var um ölvun í miðbæ Reykjavíkur í nótt og eitthvað var um pústra. Lögreglan segir hins vegar að nóttin hafi gengið ágætlega.
Fimm ökumenn voru teknir ölvaðir á bak við stýri í nótt og sá sjötti var
tekinn undir áhrifum vímuefna.
Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var töluvert um neyðarflutninga í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Varðstjóri segir að alls hafi borist 13 neyðarútköll í bænum í nótt sem sé mikið. Það hafi síðan komið í ljós að um minniháttar mál var að ræða. Mál sem tengjast ölvun og pústrum.