Þyrla Landhelgisgæslunnar er búin að fara a.m.k. þrjár ferðir með vatn sem hún hefur hellt yfir gróðurelda sem kviknuðu í hrauni rétt sunnan við Straumsvík í kvöld. Erfiðlega gengur fyrir Slökkvilið höfðuborgarsvæðisins að komast að eldinum. Engan hefur sakað og þá eru engin mannvirki í hættu.
Varðstjóri hjá SHS segir í samtali við mbl.is að það sé mjög erfitt að komast að eldinum. Slökkviliðsmenn hafi hins vegar fundið slóða og þeir séu að fikra sig nær. Nú séu þeir um 100 metra frá logunum. Einn slökkvistöð er á staðnum með dælubíl, sexhjól og lítinn vatnstank.
Hann bendir á að eldur logi ofan í sprungum. Sé hann ekki slökktur sé hætt við því að hann geti logað í marga daga og jafnvel breitt úr sér, þ.e. fari allt á versta veg. Erfitt sé að eiga við eld í hrauni. Þá sé gróður þurr.