Slökkvistarfi lokið

TF-LÍF við slökkvistörf.
TF-LÍF við slökkvistörf. mynd/Þórólfur Gunnarsson

Slökkvistarfi er lokið í Hafnarfirði. TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, dældi 18 tonnum af vatni á eld sem logaði í þurrum mosa og sinu í hraunsprungum rétt suðvestan við Straumsvík í kvöld. Að sögn Gæslunnar gekk þyrlunni vel við slökkvistarfið.

Þyrlan fór síðustu ferðina um kl. 22:15 og var farin um klukkan 22:30. Þá hafði hún verið um klukkustund á vettvangi. Hún var með sérstaka slökkvifötu, sem kallast á ensku bambi bucket, sem hún gat sótt vatn í og hellt á logana.

Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru eldsupptök ókunn. Slökkviliðsmenn náðu að leggja vatnslögn að svæðinu og þannig sprautað á síðustu glæðurnar. Engan sakaði og engin mannvirki voru í hættu. Svæðið sem brann var afmarkað og ekki mjög stórt.

Mjög erfiðlega gekk fyrir slökkviliðið að komast á brunastaðinn og því óskuðu þeir eftir aðstoð þyrlunnar. Gæslan segir að búnaðurinn hafi sýnt og sannað gildi sitt í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert