Fimleikafólk úr Gerplu leggur á morgun, mánudag, af stað í hringferð um landið. Tilgangurinn er að kynna fimleika fyrir fólki á landsbyggðinni og vekja um leið athygli á Unglingalandsmóti UMFÍ, vímuefnalausri íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin verður um verslunarmannahelgina í Borgarnesi.
Hópurinn stoppar á alls fimm stöðum á leið sinni um landið. Skipulagðar eru sýningar á 4 stöðum og að þeim loknum býðst áhugasömum að taka þátt í vinnubúðum. Í vinnubúðunum mun hópurinn kenna ýmsar grunnæfingar í fimleikum.
„Fimleikar eru frábær íþrótt og maður þarf alls ekki að hafa æft hana frá barnsaldri til að ná árangri. Í okkar huga er ekkert skemmtilegra en að þeytast um loftið í fimleikaæfingum og okkur langar að miðla því viðhorfi okkar til fólks um allt land,“ segir Björn Björnsson sem auk Ásu Ingu Þorsteinsdóttur sér um þjálfun fimleikafólksins.
„Okkur hefur lengi dreymt um að fara í þessa ferð og nú erum við loksins að láta drauminn rætast. Í hópnum er margt af besta fimleikafólki landsins og enginn ætti að vera svikinn af því að því sem við hyggjumst bjóða upp á.“ bætir Ása Inga við.
„Við erum fyrst og fremst að kynna hópfimleika í þessari atrennu. Þeir henta mjög vel til iðkunar úti á landsbyggðinni þar sem ekki þarf mikið af áhöldum til að framkvæma flóknar æfingar. Árið 2011 verður í fyrsta skipti keppt í fimleikum á unglingalandsmóti og er von okkar að ferðin muni hvetja ungt íþróttafólk til að taka þátt þar,“ segir Björn.
Í hópnum eru bæði aðilar úr karla- og kvennaliðum Gerplu í hópfimleikum en bæði lið hafa náð góðum árangri á undanförnum árum á erlendum vettvangi.
Dagskráin er eftirfarandi:
Mánudaginn 19. júlí: Íþróttamiðst. Höfn í Hornafirði kl. 18:00
Þriðjudaginn 20. júlí: Íþróttamiðst. Egilstöðum kl. 18:00
Miðvikudaginn 21. Júlí: Akureyri, uppátæki allan daginn
Fimmtudaginn 22. júlí: Íþróttamiðst. Sauðárkróki kl. 16:30
Föstudaginn 23. júlí: Steinatjörn Grundarfirði kl. 18:00.
Fólk ætti því ekki að láta sér bregða í brún þótt einstaka heljarstökkum eða araba-flikkum bregði fyrir á ofangreindum stöðum.