Ró og spekt einkenndu liðna nótt að sögn lögreglunnar á Akureyri sem man ekki eftir jafn rólegri helgi það sem af er sumri. Tveir fengu að gista fangageymslur í Reykjanesbæ sökum ölvunar. Að öðru leyti var nóttin róleg í Reykjanesbæ. Að sögn lögreglunnar á Akureyri eru fangageymslur galtómar og þrátt fyrir talsverðan fjölda af fólki hafi nóttin verið afar róleg. Sömu sögu er að segja af Sauðárkróki, Húsavík og Ísafirði. Í umdæmi lögreglunnar í Borgarnesi voru öll tjaldstæði full en lögregla þurfti þó engin afskipti að hafa af tjaldgestum. Á Akranesi var margt um manninn og mikið um veisluhöld en að sögn lögreglu fór allt vel fram og nóttin var afar róleg.