Sveinn Margeirsson og Eva Margrét Einarsdóttir komu fyrst í mark í Vesturgötuhlaupinu sem fór fram fyrr í dag á Vestfjörðum. Hlaupin var 24 km leið eftir vegi sem Elís Kjaran ruddi á sínum tíma. Þátttakendur voru um 90 talsins.
Einnig var hlaupin styttri vegalengd sem var um 12 kílómetrar og þar voru 70 þátttakendur.
Vesturgötuhlaupið var lokahnykkurinn í mikilli hlaupahátíð á Vestfjörðum. Hátíðin var feikilega vel heppnuð og mikil þátttaka var í öllum greinum.
Góð stemning var og gott veður en þetta er annað árið sem hlauphátíðin fer fram.
Það eru íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri og Riddara Rósu sem standa að hátíðinni.
Guðbjörg Sigurðardóttir, formaður Riddara Rósu, segist afar ánægt með hvernig til tókst. Stemning hafi verið góð og allt gengið áfallalaust fyrir sig. Allt hafi verið eins og best verði á kosið. Guðbjörg segir stefnt að því að halda keppnina aftur á næsta ári.
Í gær fór fram svokölluð Svalvogakeppni, sem er hjólreiðakeppni. Hjóluð var u.þ.b. 55 kílómetra löng leið. Þátttakendur þar voru 37 talsins.
Úrslitin í Vesturgötuhlaupinu eru á þessa leið í karlaflokki:
1. Sveinn Margeirsson á 1 klst. 35,10 mín.
2. Jósep Magnússon á 1 klst. 38,58 mín.
3. Þórólfur Ingi Þórsson á 1 klst. 40,35 mín.
4. Sigurjón Sigurbjörnsson á 1 klst. 45,05 mín.
5. Rúnar Pálmason 1 klst. 51,10 mín.
Í kvennaflokki voru úrslitin á þessa leið:
1. Eva Margrét Einarsdóttir á 1 klst. 59,05 mín.
2. Björg Árnadóttir á 2 klst. 3,05 mín.
3. Hrefna Bjarnadóttir á 2 klst. 05,10 mín.
4. Auður Aðalsteinsdóttir á 2 klst. 10,45 mín.
5. Þóra Magnúsdóttir 2 klst. 13,18 mín.
Í 12 kílómetra leiðinni, sem er hálf Vesturgata, fóru úrslit á þessa leið:
Karlar:
1. Benedikt Sigurðsson 52.01
2. Örnólfur Oddsson 54.24
3. Roni Tino Pedersen 1:00.28
Konur:
1. Martha Ernstdóttir 58.51
2. Védís Ármannsdóttir 59.21
3. Hulda Pálsdóttir 1: 00.16
Rétt er að taka fram að þetta eru óstaðfestir tímar.