Halli á ríkissjóði 9,3% af landsframleiðslu

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Samkvæmt ríkisreikningi fyrir síðasta ár var halli á rekstri ríkissjóðs 139 milljarðar króna. Svarar það til 32% af tekjum ársins og 9,3% af landsframleiðslu. Áætlanir fyrir árið 2009 gerðu ráð fyrir  173 milljarða halla en tekjur urðu 22 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir, og gjöldin 12 milljörðum króna lægri.

Tekjur ársins urðu alls tæpir 440 milljarðar króna. Tekjuáætlun fyrir árið 2009 gerði hins vegar ráð fyrir tekjum að upphæð rúmum 417 milljörðum króna. Tekjur ríkissjóðs eru því mun hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Nánast allir tekjuþættir eru hærri en búist hafði verið við.  

Gjöld ríkissjóðs reyndust um 579 milljarðar króna. Árið 2008 námu þau 688 milljörðum króna. Heildarútgjaldaheimildir hljóðuðu upp á 590 milljarða króna og raunútgjöld því tæpum 12 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir.

Stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs á árinu 2009 eru útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála og menntamála. Þessir þættir vega rúmlega 51%. Gjöld til almannatrygginga og velferðarmála námu 135 milljörðum króna eða 23% af gjöldum ríkissjóðs. Útgjöld til heilbrigðismála námu 117 milljörðum króna eða 20% af gjöldum ríkissjóðs og voru tæpum 3 miljörðum yfir fjárheimildum ársins. Gjöld til menntamála námu 46 milljörðum króna eða 8% af gjöldum ríkissjóðs.

Útgjöld til efnahags- og atvinnumála námu 69 milljörðum króna eða 12% af heildargjöldum ríkissjóðs en þar vega þyngst 26 milljarða króna framlög til vegasamgangna. Gjöld vegna óreglulegra útgjalda námu 36 milljörðum króna eða 6% af gjöldum ríkissjóðs. Gjöld til annarra málaflokka námu samtals 16% af gjöldum ríkissjóðs.

Fjármagnskostnaður ríkissjóðs nam 84 milljörðum króna á árinu 2009, eða um 14,5% af gjöldum ríkissjóðs, sem er veruleg aukning frá fyrra ári, en er rúmum 5 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert