20 börn reyndust í lífshættu

Öruggara er að hafa börn í viðeigandi öryggisbúnaði í aftursæti.
Öruggara er að hafa börn í viðeigandi öryggisbúnaði í aftursæti. mbl.is/ÞÖK

Í könnun Umferðarstofu og Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem gerð var athugun á öryggi barna í bílum við 75 leikskóla kom m.a. fram að 20 börn reyndust í lífshættu þar sem foreldrar og/eða forráðamenn barnanna höfðu sett þau í framsæti fyrir framan virkan öryggispúða. 13 þessara barna voru í bílbelti en 3 voru laus.

Umferðastofa segir, að barn sem er lægra en 150 sentimetrar á hæð, megi ekki vera farþegi í framsæti bíls með uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið.  Slíkur púði geti reynst stórhættulegur fyrir börn sem eru minni en 150 sm. Barnið hafi ekki náð nægjanlegum líkamlegum styrk og stoðkerfi þess ekki náð þeim þroska að geta þolað höggið sem púðinn getur veitt.

Púðinn springur út á hraða sem nemur u.þ.b. 300 km/klst. og að sögn Umferðarstofu getur hann auðveldlega banað barninu, hvort sem það er í barnabílstól eða með annan viðeigandi öryggisbúnað.

Því sé öruggara að barnið sé haft í viðeigandi öryggisbúnaði í aftursæti nema tryggt sé að ekki sé uppblásanlegur öryggispúði framan við það í framsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert