Tvær telpur í Reykjanesbæ, önnur sex og hin tíu ára, voru komnar í sjálfheldu í 12-14 metra háu tré og treystu sér ekki niður þegar sú yngri brá á það ráð að hringja í Neyðarlínuna úr farsíma og óska eftir aðstoð. Lögregla og slökkvilið hjálpuðu stúlkunum að komast niður heilu á höldnu um kl.19.30 í kvöld.
Atvikið átti sér stað í húsagarði í Keflavík. Telpurnar hringdu í Neyðarlínuna um kl. 19.15.
Tréð sem telpurnar klifruðu upp í stendur upp við bílskúr og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurnesjum er líklegt að þær hafi fyrst farið upp á skúrinn og svo þaðan upp í tré.
Slökkvilið gerði tilraun til að ná stúlkunum niður með kranabíl en komst ekki að með bílinn þar sem tréð er staðsett inni í garði.
Lögreglu- og slökkviliðsmenn klifruðu því upp í tréð á móti stúlkunum og náðu þeim niður, en stúlkurnar voru komnar í talsverða hæð. Þeim mun ekki hafa orðið meint af en var talsvert brugðið og príla líklega ekki í trjám á næstunni.