Bæjarstjórn Vestmannaeyja hélt formlegan fund um borð í Herjólfi á leiðinni milli Eyja og Landeyjahafnar nú síðdegis. Í samþykkt bæjarstjórnar segir m.a. að það sé von og trú bæjarstjórnar að þjónusta Landeyjahafnar verði til verulegra hagsbóta fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum með auknum lífsgæðum bæjarbúa og velsæld.
Samþykktin er eftirfarandi:
„Á vígsludegi Landeyjahafnar fagnar Bæjarstjórn Vestmannaeyja þeim miklu samgöngubótum sem falist geta í tilkomu hennar. Nálægðin milli Vestmannaeyjahafnar og Landeyjahafnar styttir ekki einungis ferðatíma milli lands og Eyja heldur gefur hún einnig tækifæri á tíðari og hagkvæmari ferðum en áður hefur þekkst í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar. Í því verður hin raunverulega samgöngubót fólgin. Bæjarstjórn Vestmannaeyja þakkar þeim fjölmörgu sem lagt hafa lóð sín á þá vogarskál sem gert hefur Landeyjahöfn að veruleika. Það er von og trú bæjarstjórnar að þjónusta Landeyjahafnar verði til verulegra hagsbóta fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum með auknum lífsgæðum bæjarbúa og velsæld. Þannig samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar um borð í m/s Herjólfi á leið til Landeyjahafnar 20. júlí 2010."