Bitra er ekki venjulegt fangelsi. Þar eru hvorki rimlar né vígalegar girðingar sem halda föngunum í skefjum. Starfsemi Bitru byggist á trausti. Það var rólegt andrúmsloft á Bitru þegar fréttamenn mbl.is bar þar að garði. Fangarnir voru að grilla sér hamborgara og njóta sumarveðursins á Suðurlandi.
Á vormánuðum var Bitra í Flóahreppi á Suðurlandi tekin í notkun sem fangelsi. Það er að vísu ekki í fyrsta sinn sem að bærinn er nýttur til þess, því þar var áður fangelsi fyrir kvenfanga, ósakhæfa einstaklinga og stundum andlega veika fanga. Í millitíðinni var starfrækt gistiheimili á bænum.