Hoffell SU kom í gærmorgun með um 245 tonn af makríl til vinnslu hjá Loðnuvinnslunni hf. á Fáskrúðsfirði og hefur þar með landað samtals 4.340 tonnum frá 9. júní sl.
Nær allur aflinn eða um 80% hefur farið í manneldisvinnslu og hafa verið framleidd 2.200-2.300 tonn af frystum makrílafurðum.
Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri LVF, segir að rífandi gangur hafi verið í veiðum og vinnslu undanfarnar vikur. Búið sé að fullnýta veiðiheimildirnar í makríl og bolfiski nema hvað ákveðið hafi verið að eiga 160 tonn eftir af makríl vegna meðafla, þegar farið verði í norsk-íslensku síldina í næsta mánuði.