Vestmannaeyjaferjan Herjólfur er kominn til Landeyjahafnar í fyrstu formlegu siglingu sinni þangað. Fjöldi fólks beið á bryggjunni eftir skipinu og um borð voru einnig margir Vestmannaeyingar sem brugðu sér með í siglinguna.
Boðið var upp á veitingar í landi meðan fólkið beið og einnig voru nikkur þandar. Herjólfur lagðist að bryggjunni laust eftir klukkan 16:30 og þegar skipið var opnað og Eyjamenn gengu í land klöppuðu Rangæingar í landi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði í ávarpi, sem hann flutti eftir að hann steig á land, að það væri ekki laust við að sér liði eins og Neal Armstrong þegar hann steig fyrstur fæti á tunglið. „Skref mitt var svo sem ekki stórt en skrefið sem samfélag okkar Eyjamanna er nú að taka er gríðarlegt."