Hreinasta listaverk

„Dagurinn í dag er mikill gleðidagur í  hugum Vestmannaeyinga því Landeyjahöfn skapar okkur mikil tækifæri, segir Grétar Þórarinsson, Vestmannaeyingur. 

Eyjamönnum var boðið í opnunarsiglingu Landeyjahafnar í dag. Margir þáðu boðið og var hvert skipspláss skipað. Grétar var meðal skipsgesta ásamt þeim Stefáni Jónassyni og Sigurlaugu Grétarsdóttur. 

Grétar sagðist vera einn af þeim sem heldur hefðu viljað hafa siglingarnar áfram til Þorlákshafnar. En nú geti þó ekki verið annað en sáttur með Landeyjahöfn, sem hann segir hreint listaverk.

„Siglingin tók ekki nema rúman hálftíma,“ segir Stefán. Hann segist fullviss um að heimsóknir til eyja muni aukast til muna. Fjölmargir hafi sett langan siglingartíma fyrir sig. Siglingin frá Þorlákshöfn gat tekið allt að því þrjá tíma.

Þau Grétar, Stefán og Sigurlaug segja breytingarnar líka gefa mikil tækifæri í ferðamannabransanum, lítið mál sé fyrir ferðamenn að hoppa yfir til Vestmannaeyja í dagsferðir.

Geta boðið hvor öðrum í kaffi

Félagarnir Sverrir Guðnason og Ragnar Böðvarsson voru einnig himinlifandi yfir nýju mannvirkjunum. Sverrir hefur lengi verið búsettur í Vestmannaeyjum og tók sér far með Herjólfi til Landeyja í dag.

Ragnar Böðvarsson er fyrrverandi bóndi  á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hann segir nýju Landeyjahöfnina mikla bragarbót fyrir Suðurland. Nú geta þeir Ragnar og Sverrir boðið hvorum öðrum í kaffi með litlum fyrirvara.

mbl.is/Hjalti Geir
Stefán Jónasson, Sigurlaug Grétarsdóttir og Grétar Þórarinsson. Þeim leist vel …
Stefán Jónasson, Sigurlaug Grétarsdóttir og Grétar Þórarinsson. Þeim leist vel á nýju höfnina í Landeyjum. mbl.is/Hjalti Geir
Ragnar Böðvarsson, fv. bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum.
Ragnar Böðvarsson, fv. bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. mbl.is/Hjalti Geir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert