„Landeyjahöfn er ekki einungis mannvirki, hún er líka þrekvirki,“ sagði Kristján L. Möller, samgönguráðherra, við opnun Landeyjarhafnar nú síðdegis.
Herjólfur lagðist síðdegis að bryggju í Landeyjahöfn við mikinn fögnuð viðstaddra. Margmenni er við höfnina og var ákaft fagnað þegar áhöfn og farþegar Herjólfs stigu á land.
Séra Halldór Gunnarsson, sóknarprestur í Holti, blessaði mannvirkið og leiddi viðstadda í bæn. Varð honum að orði hve mikil blessun það væri að engin slys hafi orðið á mönnum við framkvæmdirnar.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir eyjamenn nú sjá fram á bjartari tíma. Landeyjahöfn sé mikil afrek og gríðarlega mikilvægt skref í samgöngum fyrir Vestmannaeyjar. Landeyjahöfn eigi sér langa sögu í samgöngum milli lands og eyja, böndin séu sterk milli staðanna. Nú fái eyjamenn aukin tækifæri og því þurfi aðeins vilja og þor til að nýta þau. Elliði segist fullur bjartsýni að svo verði raunin.
Almenn ánægja ríkir með framkvæmdirnar sem stytta leiðina milli lands og eyja verulega. Siglingin tekur nú um 40 mínútur.
Að sögn verkamanna sem unnu við framkvæmdirnar gengu þær að mestu leyti mjög vel. Opnunin hafi þó tafist um tíu daga en það sé ekki af mannavöldum. Eyjafjallajökull eigi heiðurinn á því.