Múrbúðin kærir Landsbankann til ESA

Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar.
Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar.

Múrbúðin hefur sent kvörtun til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna yfirtöku Landsbankans á Húsasmiðjunni.  Segist Múrbúðin telja, að yfirtaka og eignarhald Landsbankans á Húsasmiðjunni feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 54. greinar EES samningsins.

Ennfremur telur Múrbúðin að eignarhaldið feli í sér ólögmætan ríkisstyrk í skilningi 61. greinar EES samningsins.

Í tilkynningu segist Múrbúðin hafa ákveðið að senda kvörtun til ESA vegna vangetu Samkeppniseftirlitsins til að tryggja eðlilega samkeppni frá fyrirtækjum á byggingavörumarkaði, sem bankarnir hafi yfirtekið.

„Bankarnir og yfirteknu fyrirtækin gefa skít í skilyrði Samkeppniseftirlitsins um samkeppnishegðun. Bankarnir dæla peningum í þessi ónýtu fyrirtæki til að tryggja hámarks verðmæti þeirra þegar kemur að sölu. Í tilfelli Húsasmiðjunnar er ruglið algjört, því þar er Landsbankinn að nota skattpeninga til að tryggja markaðsyfirráð þessa gjaldþrota fyrirtækis. Enginn fer eftir skilyrðum Samkeppniseftirlitsins og stofnunin fylgir þeim heldur ekkert eftir. Vegna þessarar meðvirkni Samkeppniseftirlitsins sjáum við engan annan kost en leita út fyrir landsteinana, til ESA, til að stuðla að einhverri glóru í samkeppni á byggingavörumarkaði," segir Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, í tilkynningu.

Í kvörtun Múrbúðarinnar til ESA er bent á að hegðun Húsasmiðjunnar á markaði bendi ekki til þess að Landsbankinn geri skýrar arðsemiskröfur til fyrirtækisins. Miklu fremur bendi allt til þess að arðsemin eigi að skila sér í háum verðmiða þegar Húsasmiðjan verður seld, á grundvelli yfirburða markaðsstöðu sem fáist með aðstoð ótakmarkaðrar lánafyrirgreiðslu frá Landsbankanum.

Heimasíða Múrbúðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert