„Þetta gengur bara vel. Við höfum veitt 40 langreyðar. Þetta er bara á þessum hefðbundnu miðum hérna suðvestur af Garðskaganum og vestur af Faxaflóa,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Tvö skip eru að veiðum á vegum fyrirtækisins, Hvalur 8 og 9.
Hvalveiðikvótinn í ár fyrir langreyði er um 150 dýr en hægt er að flytja fimmtung á milli ára ef á þarf að halda. Kristján segir þó óljóst hversu mikið verði nákvæmlega veitt í ár. Það skýrist síðar hvernig það verði enda hafi veðurfar t.a.m. mikil áhrif á þessar veiðar. „Það eru helst brælur og þokur sem hafa áhrif á okkur, þá getum við lítið gert.“