Stöðugt þarf að dýpka Landeyjahöfn

Herjólfur með trýnið opið í Landeyjahöfn á föstudagskvöld þegar skipið …
Herjólfur með trýnið opið í Landeyjahöfn á föstudagskvöld þegar skipið prófaði höfnina. mbl.is/Sigurður Bogi

Stöðugt þarf að dýpka Landeyjahöfn en verulegar sveiflur geta orðið í magni á milli ára. Dýpka þarf innsiglingu innan hafnar sem er 70 metra breið og 7,9 metra djúp. Í innri höfn var dýpkað snúningssvæði fyrir Herjólf sem er 5,5 metra djúpt. Utan hafnar er sandrif sem gert er ráð fyrir að þurfi að dýpka.

Höfnin verður tekin formlega í notkun í dag þegar Herjólfur siglir þangað inn frá Vestmannaeyjum um klukkan 16:30.  Auk boðsgesta býðst Eyjamönnum að fara með skipinu eins lengi og pláss leyfir. 

Reiknað er með að Landeyjahöfn verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í Eyjum og muni ýta undir aukna samvinnu í atvinnu- og félagslífi milli Eyjamanna og íbúa á Suðurlandi. Ferðatíminn á sjó milli lands og Eyja styttist verulega, úr tæpum þremur klukkustundum í  rúmar 30 mínútur og samtals styttast því sigling og akstur til Reykjavíkur úr fjórum klukkustundum í tvær og hálfa klukkustund.

Gerð Landeyjarhafnar fól í sér byggingu tveggja 700 metra langra brimvarnargarða, 3,9 km sjóvarnar- og leiðigarða í Bakkafjöru og við Markarfljót, dýpkun og byggingu ferjubryggju og aðstöðu og vegagerð að Landeyjahöfn.

Í brimvarnargarðana þurfti um 670.000 rúmmetra  af grjóti, innri grjótgarða 100.000 rúmmetra og í varnargarðana 80.000 rúmmetra af grjóti og um 200.000 af möl. Magn dýpkunarefnis er um 220.000 rúmmetrar. 

Landgræðslan náði yfir 600 hektara, lóðin er um 4 hektarar og steypt bryggja 70 metra löng. Farþegahúsið er 400 fermetrar með snyrtingum og veitingaaðstöðu.

Vega- og brúargerð fól í sér gerð 11,8 km Bakkafjöruvegar milli Hringvegar og Landeyjahafnar, byggingu 20 m langrar brúar á Ála og nýja vegtengingu milli Bakkafjöruvegar og Bakkaflugvallar.

Áætlaður kostnaður við hafnargerðina er 3,98 milljarðar króna. Þar af kosta brimvarnargarðar og varnargarðar    2140  milljónir, vegagerðin 780 milljónir, farþegaaðstaða og frágangur lóðar 260 milljónir, landgræðsla        250 milljónir, steypt bryggja, ekjubrú og farþegalandgangur kosta  175 milljónir og dýpkun hafnar og innsiglingar               130 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert