Talsvert fé bundið í rækjunni

Byggðastofnun á hlutafé í nokkrum rækjuvinnslufyrirtækjum.
Byggðastofnun á hlutafé í nokkrum rækjuvinnslufyrirtækjum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að taka úthafsrækju út fyrir kvóta mun að öllum líkindum hafa slæm áhrif á efnahagsreikning Byggðastofnunar.

Ríkisstjórnin afgreiddi fyrir skömmu 3,6 milljarða fjárframlag til stofnunarinnar til að eiginfjárstaða hennar yrði jákvæð á ný.

Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun nema lánveitingar til rækjuiðnaðar um 1,3 milljörðum króna, en þar af er stærstur hluti vegna lána til kaupa á úthafsrækjukvóta. Heildarútlán stofnunarinnar við lok síðasta árs námu tæplega 17,4 milljörðum króna. Jafnframt kemur fram í ársskýrslunni að stofnunin á hlutafé í nokkrum rækjuvinnslufyrirtækjum. Nú síðast fyrir nokkrum vikum lánaði Byggðastofnun Kampa ehf. 160 milljónir króna til kaupa á úthafsrækjukvóta.

Mættu litlum skilningi hjá ráðherra

Fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) auk forsvarsmanna nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja funduðu með Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra í gær, í eina og hálfa klukkustund. Fundurinn fór fram að ósk útvegsmanna, þar sem þeir vildu fá tækifæri til að útskýra sitt sjónarmið í málinu. Meðal þess sem sjávarútvegsráðherra leggur til grundvallar ákvörðun sinni er að aflamark úthafsrækju hafi verið illa nýtt á síðastliðnum árum. Í lögfræðiáliti sem unnið var síðasta sumar kemur fram að árin fjögur þar á undan hafi nýtingin verið 77-92% undir heildaraflamarki. Því megi færa rök fyrir því að það að taka úthafsrækjuna út fyrir kvóta sé löglegt.

Segir aflamarkið munu verða fullnýtt

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir í samtali við Morgunblaðið að þessi röksemd haldi ekki lengur. Það sem af er fiskveiðiárinu hafi yfir 5.500 tonnum verið landað. 200 til 250 tonnum sé landað á viku, þannig að 7.000 tonna aflamark úthafsrækju verði auðveldlega fullnýtt á þessu fiskveiðiári.

„Nú þegar þessar veiðar eru loksins orðnar arðbærar á ný gefur ráðherrann veiðarnar frjálsar. Það þykir mér óskiljanlegt,“ sagði Ólafur.

Gefur lítið fyrir skýrslu

Ólafur segir skýrslu sem unnin var af starfshópi um breytta skipan rækjuveiða lítilsverða. Enginn þeirra sem voru í starfshópnum hafi nokkra reynslu af rækjuiðnaði. Jafnframt sé skýrslan full af staðreyndavillum og rökleysum. Í hópnum voru Hrefna Gísladóttir, Jóhann Sigurjónsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert