Forstjóri Veiðimálastofnunar segir, að veiðifélög landsins verði að taka til hendinni og banna alfarið stórlaxadráp. Verulega skorti á hjá sumum þeirra, að hafa sett sér slíkar reglur.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri, segir á vef Veiðumálastofnunar, að ekki sé heldur nóg að hafa reglur heldur þurfi að ganga eftir því að eftir þeim sé farið.
„Í netaveiði er hægt að seinka veiðinni uns stórlax er gengin hjá og velja smálaxamöskva. Í stangveiði á veiðimaður ekki að þurfa að hafa samviskubit ef hann fer eftir þeim reglum, sem gilda í hverju veiðivatn," segir Sigurður.
Hann segir að nú sé undantekningarlaust í náttúrulegum veiðiám lagt til að stórlax sé ekki drepinn. „En þessi ferill gengur hægt, allt of hægt fyrir stórlaxinn, því var gripið til þess að senda út ákall í byrjun sumars um verndun stórlaxins. Það ætti ekki að vera erfitt að hlífa stórlaxi nú þegar afburða góð veiði er alls staðar og nægan smálax að hafa vilji menn lax í soðið," segir Sigurður.