Blómlegt í Norðurhöfum

Mikill þörungablómi sést eins og grænleitir flekkir á stórum hafsvæðum …
Mikill þörungablómi sést eins og grænleitir flekkir á stórum hafsvæðum norðan Íslands. Gervihnattamynd/ESA

Ný gervihnattamynd sýnir mikinn þörungablóma fyrir norðan Ísland.

Karl Gunnarsson, sviðsstjóri sjó- og vistfræðisviðs Hafrannsóknarstofnunar, segir þetta vera kalksvifþörunga. Miklar breiður af þeim geti sprottið upp á sumrin. Oftast séu stórir flekkir sjáanlegri vestur og sunnan við land sem stafi af kalksvifþörungum (coccolithophorida). 

Tegundir kalkþörunga eru mismunandi eftir stöðum að sögn Karls. Þannig séu aðrar tegundir norðan við landið. Hann segir kalksvifþörunga venjulega í miklum blóma yfir hásumarið í júní og júlímánuði. Karl segir að í kringum Ísland sé mesta kalkmyndun í heimi. Þörungarnir myndi breiður sem nái yfir allt að 700 þúsund ferkílómetra svæði. Þéttleikinn er þá gjarnan nokkrar milljón frumur í lítra.

Þörungarnir mynda þunna varnarskel úr kalki. Þær eru ljósar að lit og gefa hafinu þennan ljósa lit sem sést á myndinni. 

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Háskóla Íslands, taldi þetta vera óvenju mikinn þörungablóma. Eins og greint var frá á mbl.is í gær rannsaka vísindamenn nú hvort aska úr eldgosinu í Eyjafjallajökli hafi ýtt undir aukningu plöntusvifs í hafinu.

Ingibjörg sagði að landsins forni fjandi, hafísinn, hafi horfið óvenju hratt og sést nú nánast ekki upp að strönd Austur-Grænlands. Á tímabili var ísinn kominn nokkuð austarlega og var orðinn talsvert dreifður. Svo komu sterkar norðaustanáttir og þá sópaðist ísinn hraðar burt en Ingibjörgu rekur minni til að áður hafi gerst. 

Sérfræðingar Hafró segja þörungamergðina vera eðlilegan hluta af vistkerfinu og ekki sé ástæða til að ætla að hún hafi slæm áhrif á lífríkið .

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert