Íbúar við Norðurgötu á Siglufirði stóðu fyrir óvenjulegum mótmælaaðgerðum í morgun. Íbúarnir eru óánægðir með að leggja eigi háspennukapla í jörðu eftir götunni og í morgun mótmæltu þeir með vinsamlegum hætti með því að bjóða starfsmönnum Steypustöðvar Skagafjarðar, sem sér um framkvæmdina, upp á kaffiveitingar.
Fram kemur á vefnum siglo.is, að íbúarnir séu afar óánægðir með vinnubrögð fyrrum bæjaryfirvalda og finnist að ekki hafi verið hugað að hagsmunum og velferð íbúa við þær götur sem kaplarnir verða lagðir. Hefðu þeir viljað sjá þessa miklu framkvæmd fara í umhverfismat eða grenndarkynningu.
Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í gær. Er von er á sérfræðingi til þess að skoða málið og ætla Geislavarnir ríkisins einnig að fjalla um það.