Dapurleg niðurstaða

Slökkviliðsmenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Slökkviliðsmenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Júlíus

„Það er afskaplega dapurlegt að kjaradeilan sé komin í þetta horf,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á Höfuðborgarsvæðinu. Miðað við núverandi stöðu sé ólíklegt að verkfallið fáist afstýrt. Menn haldi þó í vonina um óvænta sátt.

Verði af fyrirhuguðu verkfalli mun aðeins neyðartilfellum sinnt. Aðeins 21 maður verður á vakt í einu og engin bakvakt tiltæk. Slökkviliðs og sjúkraflutningamenn munu skila boðtækjum.

„Það verður mjög erfitt fyrir mig að boða menn í stórútköll. Venjulega hafa liðsmenn okkar gsm síma sem auðveldar okkur að ná í þá,“ segir Jón Viðar.  Slökkviliðsmenn muni skila öllum boðtækjum á föstudaginn. Þar af leiðandi muni viðbragðstími og mannafli skerðast komi til stórútkalla. 

Jón Viðar segist ætla að setjast niður með sínum mönnum og fara yfir viðbragðsáætlanir. Í 20. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé gefin heimild til að kalla til starfsmenn, sem séu í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi.

„Munurinn á okkar starfsmönnum og öðrum starfsstéttum er sá að við þolum enga fundarsetu eða bið komi til neyðarástands,“ segir Jón Viðar. Enginn geti sagt fyrir um neyðarútköll en komi þau upp þurfi að bregðast við og það strax. 

Slökkviliðsmenn hafa ekki farið í verkfall áður. „Verkfallsréttur slökkviliðsmanna er mjög vandmeðfarinn sem þeir hafa svo sannarlega virt. Slökkviliðsmenn hafa verið mjög meðvitaðir um að horfa á verkfall sem algjört neyðarúrræði,“ segir Jón Viðar. Nú sé mikilvægt að finna sameiginlega lausn á málum.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert