Fyrsta hækkun frá janúar 2008

Vísitala kaupmáttar launa, sem Hagstofan reiknar út, hækkaði um 2,6% milli júní og júlí og hefur þá hækkað um 0,3% síðustu tólf mánuði. Er þetta í fyrsta skipti frá því í janúar 2008 sem vísitalan mælir hækkun kaupmáttar launa á 12 mánaða tímabili en fram að þeim tíma hafði kaupmáttur hækkað umtalsvert um langt skeið.  

Í janúar 2008 mældist 12 mánaða hækkun vísitölu kaupmáttar launa 0,6% en í þeim mánuði hækkaði launavísitalan um 1,3%. Að sögn Gunnars Axels Axelssonar, sérfræðings hjá Hagstofunni, hefur vísitala kaupmáttar síðan lækkað um 11,3%. Þessi vísitala er samspil vísitölu launa og vísitölu neysluverðs.

Þrívegis hefur mælst hækkun í einum mánuði að sögn Gunnars, í júlí og nóvember á síðasta ári, og síðan nú í júlí. Ástæðan fyrir hækkuninni nú er einkum 2,5% almenn launahækkun, sem varð 1. júní, og á sama tíma hefur vísitala neysluverðs verið að lækka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka