Kristín Lilja Eyglóardóttir hefur verið ráðin í stöðu læknis við heilsugæsluna í Fjarðabyggð, með aðsetur á Eskifirði. Ráðningin nær að minnsta kosti til loka febrúar á næsta ári, að því er kemur fram á vef Austurgluggans.
Þar er haft eftir Valdimar Hermannssyni, yfirmanni heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, að heilsugæslan verði meðal annars mönnuð þannig, að Þórarinn Baldursson sé yfirlæknir með aðalstarfsstöð á Reyðarfirði. Sérgreinalæknar frá Landsspítalanum manni áfram eina stöðu við heilsgæsluna á móti heimilislæknum sem komi meðal annars frá öðrum starfsstöðvum innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Staða læknis við heilsugæsluna var auglýst fyrr í sumar. Þá sótti aðeins einn um, Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir við Heilbrigðisstofnun Austurlands. Hannes var hins vegar ekki ráðinn en honum var sagt upp störfum hjá stofnuninni í ársbyrjun.