Ráðin sveitarstjóri á Ströndum

Ingibjörg Valgeirsdóttir.
Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Strandabyggðar. Ingibjörg starfar nú sem framkvæmdastjóri í eigin fyrirtæki, Assa - þekking & þjálfun. Hún hefur lokið MBA námi við Háskólann í Reykjavík og er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum.

Ingibjörg hefur m.a. unnið við starfsmanna- og stjórnendaþjálfun og séð um framkvæmdastjórn í verkefnum á borð við hvatningarátakið Til fyrirmyndar og Stefnumót á Ströndum. Ingibjörg hefur mikla reynslu af vinnu með ungu fólki í vanda og var um tíma forstöðumaður unglingasmiðjunnar Stígs. Ingibjörg kemur til starfa í september, en þangað til sjá oddvitar Strandabyggðar um framkvæmdastjórn í sveitarfélaginu að því er segir í tilkynningu á vef Strandabyggðar.

Fjörutíu einstaklingar sóttu um starf sveitarstjóra Strandabyggðar en frestur til að sækja um starfið rann út í byrjun júlí. Ingibjörg tekur við starfinu af Ásdísi Leifsdóttir sem sinnt hefur starfi sveitarstjóra frá árinu 2001 en hún hætti störfum fyrir stuttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert