Útlit er fyrir metár í berjasprettu á landinu öllu þetta árið. Samkvæmt upplýsingum frá Konráði Pálmasyni, berjaáhugamanni, ber mönnum saman um það í öllum landshlutunum fjórum, að berjasprettan sé óvenjusnemma á ferðinni.
Þarf þó ekki nokkurn að undra, þar sem veður hefur verið afskaplega hagfellt berjunum undanfarið vor og nú í sumar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Konráð heldur úti ásamt bróður sínum vefsvæðinu berjavinir.com. Hann safnar saman upplýsingum frá fólki um land allt um berjasprettuna og miðlar þeim áfram. Það er ekki síst sérstakt fyrir þær sakir að Konráð hefur verið búsettur í Brisbane í Ástralíu undanfarin 25 ár.