Útlit fyrir verkfall á föstudag

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sýna samstöðu með samninganefnd sinni.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sýna samstöðu með samninganefnd sinni. Júlíus Sigurjónsson

Fundi fulltrúa slökkviliðsmanna og launanefndar sveitarfélaga hjá embætti ríkissáttasemjara var að ljúka rétt í þessu og hefur annar fundur ekki verið boðaður. Bendir nú allt til þess að boðað verkfall slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna hefjist á föstudaginn.

„Það er ekkert í gangi. Að óbreyttu hefjum við verkfallsaðgerðir á föstudaginn eins og boðað var,“ segir Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna. Hann segir engar nýjar lausnir í sjónmáli en slökkviliðsmenn haldi í vonina um að hægt verði að semja á endanum.

Sverrir Björn vildi ekki tjá sig frekar um gang mála. Hann og hans menn muni fara yfir stöðuna í kvöld.

„Viðræðum var slitið áðan og ekkert er ákveðið með framhaldið,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún segir ekkert nýtt hafa komið fram og staðan sé því óbreytt. Farið hafi verið yfir stöðu mála undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Það sé nú í hans valdi að boða nýjan fund.

Launanefnd sveitarfélaga bauð slökkviliðsmönnum 1,4% kauphækkun frá 1. júlí en samningar hafa verið lausir í tæpt ár. Slökkviliðsmenn horfa hins vegar mjög til þess að lögreglumenn fengu nýlega sex prósenta launahækkun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert