Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ákveðið að framlengja skipunartíma fjárhaldsstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness til 1. nóvember næstkomandi. Upphaflegur skipunartími hennar var til 1. ágúst.
Formaður fjárhaldsstjórnarinnar er Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður, og aðrir nefndarmenn þau Elín Guðjónsdóttir, viðskiptafræðingur sem tilnefnd var af fjármálaráðherra, og Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur, sem tilnefndur var af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fjárhaldsstjórnin var skipuð í byrjun febrúar að tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem hafði haft fjárhagsstöðu sveitarfélagsins til athugunar um skeið.
Samgönguráðuneytið segir, að þar sem verkefni fjárhaldsstjórnarinnar hafi reynst umfangsmeira en séð varð í fyrstu sé skipunartími hennar lengdur en í lögum segi að fjárhaldsstjórn megi skipa til tiltekins tíma og eigi lengur en til eins árs í senn.