Flugáætlun Flugfélags Íslands milli Reykjavíkur og Akureyrar verður flýtt í fyrramálið svo hægt sé að fljúga tvær flugferðir áður en átta stunda langt verkfall slökkviliðsmanna skellur á klukkan 8.
Að sögn Ara Fossdal, stöðvarstjóra Flugfélags Íslands á Akureyri, er áætlað að tvær flugvélar fari frá Reykjavík til Akureyrar klukkan 6:45. Áformað er að flugvélarnar fari til baka frá Akureyri laust fyrir klukkan 8.
Þá mun flugvél leggja af stað frá Reykjavík klukkan 15:15 og áætlað er að hún lendi á Akureyri laust eftir klukkan 16 en þá lýkur verkfallinu. Áformað er að flugvélin haldi frá Akureyri klukkan 16:16.
Engin slökkviþjónusta verður á Akureyrarflugvelli meðan á verkfalli slökkviliðsmanna stendur en slökkvliðsmenn, sem sinna þar þjónustu, eru í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hefur landssambandið boðað nokkur dags verkföll, það fyrsta á morgun, fram í september þegar allsherjarverkfall hefst hafi ekki náðst kjarasamningar.
Flugvöllurinn er hins vegar ekki lokaður og mun Norlandair sinna áætlunarflugi til Þórshafnar, Grímseyjar og Vopnafjarðar.
Akureyrarbær segir, að komi til verkfalls slökkviliðsmanna muni öllum neyðartilvikum verða sinnt af hálfu slökkviliðsins, hvort sem um er að ræða bruna, sjúkraflutninga á landi eða sjúkraflug. Starfsmenn í eldvarnareftirliti og starfsmenn slökkviliðsins á Akureyrarflugvelli leggi niður störf á morgun frá klukkan 8 til 16.