Ganga ekki í störf slökkviliðsmanna

Slökkviliðsmenn að störfum. Mynd úr safni.
Slökkviliðsmenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Jim Smart

Yfirmenn og skrifstofustarfsmenn hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins munu ekki ganga í störf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem munu hefja verkfall í fyrramálið. Slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu bendir á að slíkt sé bannað lögum samkvæmt.

„Við þurfum að hafa það í huga að það er lagaleg ákvæði um það að menn mega ekki ganga í störf annarra,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is. Hann bætir við að vinnulagið muni ekki koma til með að breytast.

Hann bendir á að lögum samkvæmt sé hægt að kveða menn, sem eru í verkfalli, til starfa til þess að afstýra neyðarástandi. „Það er sú regla sem við keyrum á og þeim réttindum og skyldum sem liggja á þessari stétt.“

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa boðað til verkfalls klukkan átta í fyrramálið. Þá munu þeir hætta að sinna öllu nema neyðartilvikum auk þess sem þeir munu skila inn boðtækjum, sem þýðir að enginn verður á bakvakt.

Hefur áhyggjur af stöðu mála

Jón Viðar segir aðspurður að það sé ekki gott að þurfa að vera í þessari stöðu. Menn verði að finna einhverjar leiðir til að glíma við vandann. Því miður hafi ekki náðst samkomulag um kaup og kjör og það er eitthvað sem menn verði að leysa sem fyrst. 

„Síðan eru aðrar skyldur sem hvíla á mér varðandi þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og það er eitthvað sem þarf að leysa. Og passa að neyðartilvikum verði sinnt. En það er alltaf þessi hætta í gangi, við svona aðstæður, að það komi upp atvik sem kannski verður dapurleg niðurstaða af,“ segir Jón Viðar.

Hann bendir á færri séu á vakt, hætt sé við að mörg útköll komi á sama tíma og einnig geti komið upp stór atvik sem krefjist þess að boða verði út allan mannskap, einnig þá sem séu á frívakt.

„Þetta eru miklar áhyggjur sem maður hefur, en maður veit að launanefndin og stéttarfélagið eru búnar að reyna að gera það sem þær geta til þess að ná saman. Það tókst ekki í þessari lotu en vonandi fáum einhverjar jákvæðar fréttir frá þeim á næstunni,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka