Gegn olíuborun á Drekasvæðinu

Baráttukonur úr röðum Grænfriðunga vekja athygli á olíuslysinu í Mexíkóflóa …
Baráttukonur úr röðum Grænfriðunga vekja athygli á olíuslysinu í Mexíkóflóa í Berlín í vikunni. Reuters

Grænfriðungar, ein áhrifamestu umhverfisverndarsamtök heims, leggjast alfarið gegn olíuborun á Drekasvæðinu í framtíðinni. Samtökin telja að slík olíuvinnslu yrði til að stórsakaða ímynd Íslands sem land hreinnar, endurnýjanlegrar orku. Þau leggjast einnig gegn olíuvinnslu við Grænland.

Mads Flarup Christensen, yfirmaður Norðurlandadeildar Grænfriðunga, staðfesti þetta í samtali við fréttavef Morgunblaðsins nú síðdegis.

Aðvara ríki heims

„Við beitum okkur nú þegar gegn yfiirstandandi olíuborunum vestur af Grænlandi. Við lýsum yfir andstöðu við olíuborun á miklu dýpi á hafi úti og vörum ríki heims við að hefja hana um þessar mundir og fylgja þar með fordæmi Bandaríkjastjórnar sem hafa stöðvað hana í bili.

Þá vísum við í þá ákvörðun olíumálaráðherra Noregs að banna olíuvinnslu suður af svæðinu við Lofoten þangað til frekari vitneskju hefur verið aflað og lærdómur dreginn af olíuslysinu í Mexíkóflóa. Þetta er lágmarkskrafa okkar, að borun eftir olíu á miklu dýpi á sjó verði hætt þar til öll kurl eru komin til krafar varðandi orsakir slyssins í Mexíkóflóa.

Annað atriði sem vert er að nefna er að við teljum ónauðsynlegt að ganga svo langt að sækja olíu á jafn miklu dýpi. Mannkynið getur aðeins leyft sér að brenna fjórðungi þess jarðefnaeldsneytis sem eftir er í jörðu eigi að takast að sporna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum umfram 2 gráður á Celsíus.“

Myndu mótmæla opinberlega

- Má af þessu skilja að samtökin myndu leggjast eindregið gegn olíuvinnslu í stórum stíl norðaustur af Íslandi?

„Við teljum að með því myndi Ísland stíga skref í ranga átt. Landið stendur frammi fyrir svo mörgum möguleikum, hvort sem varðar endurnýjanlega orkugjafa eða möguleika á útflutningi á orku til annarra ríkja. Við teljum að það væri mun betra fyrir ímynd Íslands og framtíð landsins að fjárfesta í endurnýjanlegri orku og útflutningi á henni, í stað þess að fara þá gamaldags leið að vinna olíu.“

- Þið hafið mótmælt olíuborunum við strendur Bandaríkjanna. Sérðu fyrir þér að þið munið gera slíkt hið sama ef olíuvinnsla við Ísland færist nær veruleika?

„Já, tvímælalaust. Við stöndum fyrir mótmælum í Grænlandi þessa dagana. Olíurík svæði í norðrinu, mörg hver á sjó, eru hið ókannaða land olíufyrirtækjanna. Það er okkur mjög mikilvægt að sagt verði að nóg sé komið og að fjármunum skuli beint í aðrar áttir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert