Spænskur ferðamaður hringdi til heimalands síns eftir hjálp um síðustu helgi því hann taldi sig vera villtan í Seyðisfirði. Hann hafði þá afþakkað aðstoð nærstaddra ferðalanga.
Fram kemur á fréttavef Austurgluggans, að ferðamaðurinn var kominn vel út með Seyðisfirði og var „í einhverju reiðuleysi“ að sögn lögreglunnar. Hefur Austurglugginn eftir Óskari Bjartmarz, yfirlögregluþjóni, að maðurinn hefði ekki verið í neinni hættu.
Í stað þess að þiggja aðstoð ferðamanna hringdi Spánverjinn heim til Spánar og þaðan var hringt í íslensku neyðarlínuna og beðið um hjálp fyrir hans hönd.
„Maðurinn var ekki allsgáður," segir Austurglugginn.