Nokkrir íbúar við Norðurgötu á Siglufirði eru óánægðir með að leggja eigi háspennukapal í jörðu eftir götunni. Hafa þeir efnt til mótmæla vegna málsins og vilja að sveigt verði fram hjá íbúðarhverfi með kapalinn.
Ólafur Marteinsson, formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, segir að vissulega hefði mátt standa mun betur að framkvæmdinni. En það sé skoðun nýrrar bæjarstjórnar að um sé að ræða löglega framkvæmd. RARIK hafi boðið verkið út og vilji ekki hvika frá þeirri áætlun sem fylgt sé.
„Við sáum allt í einu gröfur leggja þennan kapal beint í gegnum tjaldstæðið í bænum,“ sagði Bergþór Morthens, íbúi á svæðinu. „Svo ætluðu þeir gegnum götuna okkar og við tókum okkur þá saman og mótmæltum. Við erum jafnvel tilbúin að setjast með kaffiborð fyrir framan gröfurnar!“