Atvinnutap frá því að kreppan hófst hér á landi hefur ekki skipst jafnt á milli kynjanna. Karlar standa höllum fæti í samanburði við konur þegar allir þættir atvinnuþróunar síðustu tveggja ára eru skoðaðir, að hlutastörfum undanskildum.
Störf á öðrum ársfjórðungi 2010 voru 2.000 fleiri en á sama tíma í fyrra, en öll aukningin varð meðal kvenna. Nettóbreyting á störfum karla var engin. Körlum í fullu starfi fækkaði um 200 á milli ára á meðan körlum í hlutastarfi fjölgaði um 200. Á sama tíma fjölgaði konum í fullu starfi um 1.300 og konum í hlutastarfi um 700.
Þegar staðan nú er borin saman við annan ársfjórðung 2008 er myndin enn dekkri fyrir karlmenn, að því er fram kemur í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Á tveimur árum fækkaði körlum í starfi um 11,2 prósent. Þar af fækkaði körlum í fullu starfi um 14,7 prósent en stöðugildum karlmanna fækkaði um 12,8 prósent.
Mælt atvinnuleysi karla mældist á öðrum fjórðungi þessa árs 9,4 prósent en hjá konum 8,0 prósent.