Áformað er að svonefnd ríkjaráðstefna Íslands og Evrópusambandsins verði haldin þriðjudaginn 27. júlí en með henni hefjast formlega viðræður um aðildarumsókn Íslendinga.
Bandaríska Bloomberg fréttastofan segist fréttastofan hafa séð uppkast að skjali þar sem segir, að Ísland þurfi einkum að uppfylla skilyrði á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, umhverfismála, fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu.
Bloomberg segir, að ekki sé minnst á Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga í skjalinu en bent er á að einstök aðildarríki Evrópusambandsins geti stöðvað aðildarviðræðurnar hvenær sem er. Ekkert er heldur minnst á hvalveiðar Íslendinga í skjalinu.
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins munu setjast á fund í Brussel á mánudag þar sem aðildarviðræður við Ísland eru á dagskrá en ráðherrarnir þurfa að leggja endanlega blessun sína yfir að þær hefjist. Hinar eiginlegu aðildarviðræður hefjast væntanlega snemma á næsta ári.
Upphaflega var reiknað með því að ríkjaráðstefnan yrði haldin í september eða október en Bloomberg segir, að ESB-ríkin hafi ákveðið að flýta henni til að reyna að slá á vaxandi andstöðu við ESB-aðild á Íslandi.