Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, segist telja fullt tilefni
til þess að fram fari opinber rannsókn á einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja frá
vormánuðum 2007, til og með sölu á hlut Geysis Green Energy til Magma Energy.
Skúli, sem er formaður iðnaðarnefndar Alþingis, segir í pistli á pressunni.is, að þetta ferli hafi verið ógagnsætt og vakið tortryggni um að ekki hafi verið rétt að málum staðið en ásakanir um pólitíska fyrirgreiðslu, klíkuskap og óeðlilega viðskiptahætti i söluferlinu hafi verið þrálátar.
„Mikilvægt er að óháðir aðilar komist að hinu sanna í þessu máli því hér eru grundvallarhagsmunir þjóðarinnar í húfi. Það skiptir líka miklu máli fyrir HS Orku að fyrirtækið njóti trausts almennings ef það á að geta gegnt veigamiklu hlutverki í atvinnulífinu á komandi árum," segir Skúli.
Skúli segir einnig einsýnt, að strax á haustþingi þurfi að leggja drög að endurskoðun laga um erlenda fjárfestingu og jafnframt hefja vandaða og ítarlega umræðu um eignarhald á orkufyrirtækjum landsmanna.
„Ljóst er að ein helsta undirrót deilunnar um Magma er djúpstæður ágreiningur um erlent eignarhald á íslenskum orkufyrirtækjum. Ég skal játa það að mér finnst sú aðskilnaðarstefna sem felst í lögunum ógeðfelld og sé engin rök fyrir því að við gerum greinarmun á evrópskum eða norður- amerískum fjárfestum í þessum efnum. Sú umræða á hins vegar fullan rétt á sér hvort eðlilegt sé að erlend fyrirtæki geti eignast ráðandi hlut í orkufyrirtækjum, og þar með flutt úr landi stærstan hlut af þeirri verðmætasköpun sem fylgir orkuvinnslu í landinu. Ég tel að við endurskoðun laga um erlenda fjárfestingu sé rétt að taka til skoðunar hvort setja eigi takmarkanir á eignarhlut erlendra fjárfesta í orkufyrirtækjunum."